Thursday, September 13, 2007

Stíflað niðurfall

Þó að íbúðin okkar Ásgeirs sé fín þá er tvennt í ólagi; annars vegar einangrunin í sturtunni og hins vegar niðurfallið í eldhúsinu. Rennslið gegnum niðurfallið var lélegt og fór versnandi þannig að vaskurinn fylltist af vatni við uppvaskið. Í gær fór ég því á netið og fann leiðbeiningar til að losa um stíflur í niðurföllum. Byrjaði á því að beita drullusokki en þá stíflaðist vaskurinn hér um bil alveg og síðan hefur aðeins seitlað mjög hægt niður. Stíflueyðir sem ég fann hér í skápnum gerði ekkert gagn. Nú voru góð ráð dýr. Eftir að hafa ráðfært mig við ýmsa og heyrt drama- og hryllingssögur af loddurum sem bjóða upp á stíflulosunarþjónustu og stíflulosunarblöndum sem stífla niðurföll fór ég að ráði eins ritarans á spítalanum og keypti sérstakan stíflueyði fyrir eldhúsvaska sem gerður er úr ensímum sem éta fitu og annan mat. Þurfti í dag að hjóla út í næsta bæjarfélag til að nálgast þessa vöru og var í þann mund að hella þessu í niðurfallið. Nú er bara að bíða og vona. Framhald síðar.
Annars gekk hollenskuprófið vel en sumir nemendur voru teknir á eintal eftir prófið sem var á tölvu. Kaflarnir í bókinni eru verkefnismiðaðir; nú lærum við að tjá okkur um húsnæði, húsgögn og flutninga. Ég þóttist góður að geta spurt til vegar og keypt stíflueyðinn, allt á hollensku. Hér er ég ávarpaður af ókunnugum sem "meneer" sem þýðir herra og ókunnuga þarf yfirleitt að þéra. Á spítalanum þérar maður þá sem eru hærra settir en hollenskukennararnir tveir vilja ekki vera þéraðir. Nú er ég farinn að kynnast betur samnemendum mínum sem er allt hið ágætasta fólk.
Pétur.

5 comments:

Anonymous said...

halló halló!

gaman að lesa bloggið ykkar...við viljum endilega koma í heimsókn við fyrsta tækifæri en þó ekki fyrr en niðurfallið er komið í lag! :)

kveðja frá kóngsins Köben,
Siggi, Arna & Halla Rakel

Anonymous said...



Industrial strenght stíflueyðir.. þetta hljómar vel.

kv Dögg

Anonymous said...

Hann dugar víst líka vel við hægðatregðu... rokselst alveg.

Anonymous said...

Svo lengi sem eru ekki kakkalakkar... þá vil ég koma í heimsókn! :o)

Anonymous said...

Greinilega verið heilmikið amstur í kringum þessa stíflu (dam) Ha!
...Ok er mér ekki samt ennþá boðið í heimsókn þrátt fyrir þennan skemmtilega orðaleik?
Geiri